Thursday, September 04, 2003

A rant taken from Sápuópera í Reykjavík.. ! Vá I wish I could write like this... I like this woman ;-) I apologise for the Icelandic but when reading an Icelandic blog you have to expect it from time to time ;-)

Hann var kominn á Svarta Kaffið á Laugaveginum á undan mér. Kannski ekki alveg Johnny Depp en verulega langt frá því að vera ljótur. Með þetta líka fallega bros og aðeins 15 mínútna spjall sannfærði mig um að hann væri bæði klár og skemmtilegur. Við ákváðum að rölta Laugaveginn í góða veðrinu og þaðan upp Hverfisgötuna. Á Hverfisgötunni dró hann mig inn í bakgarð og þegar hann greip þéttingsfast utan um mig og þrýsti mér að karlmannlegu brjósti sínu, leið mér eins og flóuð hormónamjólk væri að freyða upp í hausinn á mér. Froðan hjaðnaði þó snarlega þegar mannhelvítið rak tunguna ofan í vélindað á mér í stað þess að kyssa mig. Mér svelgdist á, ég kúgaðist og táraðist en hann tók því sem merki um að mér þætti þessi taktík algjört æði.
Hann hélt því áfram og gerði heiðarlega tilraun til að sleikja æluna upp úr innyflum mínum. Má með sanni segja að engum manni hafi auðnast að komast jafn nálægt því að snerta hjarta mitt með tungulipurð sinni.

Þegar mér tókst loks að slíta mig lausa, bar ég því við að ég hefði alls ekki ætlað að láta til skarar skríða á fyrsta deiti og börnin væntu mín heim eftir smástund. Sjálfsagt hefði verið heiðarlegra að segja honum að ástæða þess að hann ætti ekki bæði konu og hjákonu væri fullkomlega vonlaus kossatækni en það var hvort sem er ekki ætlun mín að giftast honum og eignast með honum börn (enda bauð hann mér ekki kastala í fjallshlíð) og ég var hreint ekki í stuði til þess að sinna sálgæslu fram á nótt. Ég bauð góða nótt, fór aftur inn á Svarta Kaffi og dró upp varasímanúmerið. 20 mínútum síðar birtist hann í dyrunum og ég hugsaði; Guð er til -og ástin. Hann var meira en sætur. Hann var fallegri en Elijah Wood, sakleysið uppmálað, svart hár, blá augu og varla deginum eldri en 25 ára.

Ég kann engar pikkupp lí­nur svo ég spurði hann hvort hann hefði hitt fleiri konur í gegnum einkamál.
-Nei, é vassko í­ sambandi sko og so langaði mér gegt a tékkássu en emmar sé giftur þá sé maður giftur o þá vill ékkett vera að bjóða freistingunum heim so konan verði ekki vitlaus, so é gerrekket íðí. So var dömpað mér í­ sumar o þá sko gerði ég nikk addna en þa var ekket mikið kvenfólk sem svaraði o so bra svaraðir þú.

Ég horfði á hann dálitla stund. Sætur eða ofsasætur, það eru samt takmörk fyrir öllu. Ég bara GET EKKI átt kynferðislegt samneyti við lífveru sem segir "ef maður sé giftur" og "það var dömpað mér". Ég þakkaði fyrir spjallið, óskaði honum velfarnaðar og fór heim að sofa, án þess að leiðrétta svo mikið sem eina málvillu. Sumt er einfaldlega utan míns áhrifasviðs, ojamm.

Mér leiðist ennþá.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home